Samþykktir Bandalags íslenskra Farfugla

Samþykktar á aðalfundi 18. apríl 2016.

 

I. kafli

Heiti félagsins, heimili og hlutverk

 

1. gr.   

Félagið heitir Bandalag íslenskra farfugla og er félag gesta á farfuglaheimilum. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Bandalag íslenskra Farfugla er stofnandi Farfugla ses sem fer með aðild að alþjóðasamtökum Farfugla, International Youth Hostel Federation ( IYHF).

 

2. gr.   

Tilgangur félagsins er:

Að stuðla að ferðalögum sem auka þekkingu fólks á umhverfinu, umhyggju fyrir náttúrunni og virðingu fyrir menningarlegu gildi borga og bæja í öllum heimshlutum . 

 

3. gr.   

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því:

 

a) að gangast fyrir ferðalögum um byggðir og óbyggðir, annað hvort í eigin nafni eða í  samstarfi við aðra.  

b) að vinna að umhverfismálum, náttúruvernd og uppgræðslu lands.

c) að Farfuglar ses reisi og starfræki farfuglaheimili á heppilegum stöðum eða styðja  einstaklinga til þess.  Á farfuglaheimilum skulu gestir njóta jafnréttis óháð kynþætti, þjóðerni, húðlit, trúarbrögðum, kynferði, þjóðfélagsstétt og stjórnmálaskoðunum. Þannig vinna farfuglaheimilin að bættum samskiptum fólks af ólíkum uppruna.

d) að Farfuglar ses hafi opna skrifstofu er gefi upplýsingar um starfsemi félagsins.

e) að halda upp fjölbreyttri fræðslu- og skemmtistarfsemi og treysta þannig og  auka kynningu farfugla innbyrðis.

f) að stofna félög til að eiga og reka einstakar einingar sem starfa í anda félagsins.

 

 

II. kafli

Félagsmenn

 

4. gr.   

Félagsmenn geta allir orðið sem eiga lögheimili á Íslandi.

 

Stjórn félagsins ákveður árgjald félagsmanna hverju sinni. Stjórnin getur ákveðið mismunandi verð fyrir mismunandi tegundir félagsaðildar samkv. reglum sem hún setur.


Gegn greiðslu árgjaldsins afhendist farfuglaskírteini sem gildir milli gjalddaga, en hann er 1. janúar ár hvert.  Þó er heimilt að gefa út skírteini sem hafa annan gildistíma. 


Farfuglar ses annast útgáfu skírteina og innheimtir árgjöld í umboði félagsins.


Stjórn félagsins getur vikið manni úr félaginu ef henni þykir efni standa til, en hann getur borið mál sitt undir almennan félagsfund.

 

 

III. kafli

Farfuglaheimili

5. gr.   

Farfuglaheimili skulu á hverjum tíma uppfylla þær gæðakröfur sem Farfuglar ses setja í samræmi við samþykktir IYHF þar að lútandi.  Kröfurnar ber að binda í samstarfssamning Farfugla ses við forráðamenn farfuglaheimilis.


Rekstraraðilum farfuglaheimila ber að greiða árgjald til Farfugla ses, og er upphæð þess ákveðin af stjórn sjálfseignarstofnunarinnar hverju sinni.

 

 

IV. kafli

Aðalfundur

 

6. gr.   

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. 

 

Aðalfundur skal haldinn í mars eða apríl ár hvert og skal hann boðaður með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara með auglýsingum í dagblöðum og á vef Farfugla.

 

7. gr.    

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1.  
  1. Fundarsetning
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  3. Lesin fundargerð síðasta aðalfundar
  4. Skýrsla stjórnar fyrir síðasta starfsár
  5. Ársreikningur síðasta starfsárs
  6. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Skýrslan og reikningar bornir upp til samþykktar
  7. Breytingar á samþykktum félagsins
  8. Kosningar til stjórnar samkv. 8 gr.
  9. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara
  10. Önnur mál

 

8. gr.               

Aðalfundur kýs stjórn félagsins sem skal skipuð 7 mönnum.  Formaður skal kosin til eins árs í senn.  Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára, þrír í senn.  Að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum.

 

Kjörgengi og kosningarétt hafa allir félagsmenn 18 ára og eldri sem eru með gild farfuglaskírteini og eru skráðir í félagatal Farfugla næstliðin áramót fyrir aðalfund og þegar aðalfundur fer fram. Launað starfsfólk félagsins getur ekki jafnframt setið í stjórn þess.

 

Tillögur um breytingar á samþykktum og framboð til stjórnar, skulu hafa borist skrifstofu Farfugla fyrir 1. febrúar og liggja frammi á skrifstofu félagsins.

 

9. gr.   

Í atkvæðagreiðslu um einstaka liði dagskrár ræður einfaldur meirihluti atkvæða, en um  breytingar á samþyktum þarf 2/3 greiddra atkvæða.

 

10. gr.  

Aukaaðalfund má kalla saman ef brýn nauðsyn þykir að dómi stjórnar, eða ef minnst  10% atkvæðisbærra félagsmanna æskja þess.

 

 

V. kafli

Stjórn félagsins

 

11. gr.  

Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkunum er samþyktir þessar setja.

 

Hún tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og þarf meirihluta stjórnar til þess. Stjórn félagsins er heimilt að veita starfsmönnum þess prókúru eftir þörfum.

 

12. gr.  

Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stórnar sækir hann, enda hafi verið boðið til hans með hæfilegum fyrirvara. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.  Nú eru atkvæði jöfn, og ræður þá atkvæði formanns ( varaformanns ) úrslitum.

 

Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

 

 

VI. kafli

Ýmis ákvæði

 

13. gr.  

Reikningsár Farfugla er almanaksárið.

 

14. gr.      

Hætti félagið störfum eða sé það lagt niður, skal eigum þess ráðstafað í samræmi við tilgang félagsins skv. 2. og 3. grein þessara samþykkta.

 

15. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Samþykktir þessar taka gildi þegar IYHF hefur samþykkt færslu aðildar að alþjóðasamtökunum til Farfugla ses í ágúst 2016. Þangað til gilda eldri samykktir óbreyttar.


Share |

Farfuglar ses. | Borgartún 6 | 105 Reykjavík | Sími 575 6700 | Fax 553 0535 | info@hostel.is | Copyright ©www.hostel.is - Allur réttur áskilinn.